Saag Chana (Spínat- og kíkertukarrý)

November 26th, 2014

Smá olía
1 stór laukur eða 2 litlir, saxaður
1/2 tsk brún sinnepsfræ
1/2 tsk cuminfræ
2 heilar kardimommur (eða kardimommuduft á hnífsoddi með hinum möluðu kryddunum)
Salt, pipar, hvítur pipar eftir smekk

2 sm engiferbiti smátt saxaður (fullt af engifer!)
3 hvítlauksgeirar smátt saxaðir
1/2 tsk turmerik
Cuminduft á hnífsoddi
1 tsk kóríanderduft
1/2 tsk engiferduft

250 grömm frosið spínat (má nota ferskt, ef þið viljið vera grand á því, en ég held að bragðið verði ósköp svipað..)
1 stór grænn chilli hlutaður niður
1 dós kókosmjólk
1 dós saxaðir tómatar
1 dós kíkertur, síið vökvann frá.

Berist fram með t.d. sterku tómatchutney, raitu og grjónum.

Mynd af réttinum

Munið að setja yfir grjónin ef þið berið þau fram sem meðlæti!

Mýkið laukinn í olíunni við lágan hita. Setjið heilu kryddfræin um leið og laukin. Saltið og piprið.
Þegar laukurinn er byrjaður að mýkjast, bætið þá engiferinu við.
Þegar laukurinn er orðinn glær, bætið þá hvítlauknum og malaða kryddinu við.
Á meðan þessu stendur setjið þá frosna spínatið og niðurskorinn chilli-inn í blenderinn og tætið niður í litlar flygsur. Bætið kókosmjólkinni við og maukið. Hugsanlega er hægt að gera þetta með töfrasprota (ef spínatið er þýtt fyrst) eða matvinnsluvél, en ég mæli með blender.

Þegar laukurinn er byrjaður að verða ljósbrúnn, setjið þá tómatadósina út í og hækkið hitann. Þegar olían byrjar að skilja sig frá tómötunum, fjarlægið þá kardimommurnar og setjið svo spínatmaukið og kíkerturnar út í. Saltið og látið malla þar til ykkur líkar. Ég mallaði örugglega í hálftíma, eða þar til þetta hafði þornað talsvert, svona eins og grænt drullumall.

Keema matar í flatbrauði

August 27th, 2013

Keema matar er indverskur hversdagsmatur. “Keema” þýðir “hakk” og “matar” þýðir “grænar ertur”. Þetta er svona indversk útgáfa af chilli con carne 🙂 Þar sem vanþakklátu börnin mín fóru að kvarta þegar ég minntist á að ég myndi elda indverskt, ákvað ég að poppa þetta örlítið upp svo þeir myndu nú snæða eitthvað. Ég ákvað að bera þetta fram í flatbrauði með fersku grænmeti og myntujógúrtsósu. Þeir þurftu að éta yfirlýsingarnar oní sig og sá yngri, sem er einmitt aðalfordómafauskurinn, fékk sér annan skammt.

Efni í kássu:
2 tsk kóríanderfræ
1 tsk broddkúmenfræ (cumin á ensku, jeera ef keypt í asískri búð)
(ef það er ekki til mortél eða kryddkvörn, má nota 2 tsk af formöluðum kóríanderfræum og 1/2 tsk möluðu cumin í staðin fyrir fræin að ofan)
500 grömm lambahakk (það má nota nautahakk. Lambahakkið er meira alvöru)
50 grömm smjör
2 stórir laukar eða þrír meðal.
6 negulnaglar
þumlungsbiti af kanilstöng
lárviðarlauf
1 msk garam masala (helst heimagert, sjá uppskrift)
1 tsk túrmerik
1 tsk paprikuduft
1 grænn chilli (svona týpískur eins og fæst í íslenskum matvörubúðum)
1 þumlungur engifer
5 geirar hvítlaukur
1 dl jógúrt, grísk jógúrt eða sýrður rjómi
1 dós af tómötum
smá ferskt kóríander, ef vill (ég notaði ca. msk af smátt söxuðu kóríander)
1 bolli af frosnum grænum ertum
salt
pipar

Flatbrauð:
Ég ætlaði að gera chapati, en svo þurfti eldri drengurinn að hitta vini sína á ákveðnum tíma, þ.a. ég flýtti fyrir mér með að hita bara hveititortillur á heitri hellu. Mjög heppinn, einmitt að eiga tortillur inni í skáp.
Þ.a. 6-8 tortillur

Myntusósa:
10 blöð fersk mynta
2 geirar hvítlaukur
handfylli af graslauk
smá salt
1 dl jógúrt, grísk jógúrt eða sýrður rjómi

Ferskt grænmeti:
Saxaður laukur, við notuðum einn og hálfan.
Söxuð paprika, við notuðum eina rauða. Ég held að græn hefði jafnvel passað betur, en grænar paprikur eiga ekki upp á pallborðið á þessu heimili.

Ég setti líka Srirachi sósu á borðið. Hún passaði vel með.

Aðferð:
Búið til kássu:
Steikið hakkið við háan hita, jafnvel í skömmtum, svo það brúnist vel. Piprið fullt og saltið. Ég pipraði það vel að ég þurfti ekki meiri pipar í uppskriftina. Setjið hakkið til hliðar þegar það er allt brúnað. “Deglazið” með vatni og hellið út á hakkið. Ekki samt gera það ef hakkið sem festist við pönnuna náði að brenna. Brunabragð bætir ekki uppskriftina.
Á sama tíma skal rista kóríander- og cuminfræin á þurri pönnu við háan hita. Hrærið eða hristið pönnuna reglulega svo þau brenni ekki. Þau eiga að verða dökkbrún án þess að brenna! Setjið til hliðar á skál þegar þau eru tilbúin svo þau hitni ekki frekar á heitri pönnunni.
Steikið saxaðan lauk í smjöri við lágan hita, með kanilstönginni, lárviðarlaufinu og negulnöglunum. Saltið. Malið kryddfræin í mortéli eða kryddkvörn á meðan hann mýkist. Þegar laukurinn er aðeins farinn mýkjast (eftir ca. 10 mínútur ef hitinn er nógu lágur) má bæta út í smátt söxuðum hvítlauknum, engifernum og chilli-inu og fjarlægja kanilstöngina. Svo má hræra öllu þurra kryddinu saman við, ásamt nýmöluðum kryddfræunum.
Saxið niðursoðnu tómatana smátt. Ég setti þá í bolla og maukaði þá með töfrasprota.
Þegar laukurinn er farinn að brúnast, eftir ca. 20 mínútur, má setja jógúrtina út á, smá slettu í einu. Þegar sletta er samlöguð, fer næsta sletta o.s.frv. þar til jógúrtin sem á að fara í kássuna er uppurin. Þegar öll jógúrtin er samlöguð má setja tómatana út í og hækka hitann. Hrærið vel svo brenni ekki þar til tómatmaukið fer að skilja sig. Þ.e. þegar fer að fljóta svona falleg rauð fita ofan á. Þetta tekur nokkrar mínútur.
Að lokum er hakkinu bætt út í, smakkað til með salti, pipri og hugsanlega meira garam masala og svo bætt út í ca. 2 bollum af vatni. Kássan má svo sjóða við lágan hita eins lengi og vera vill, ef hún verður allt of þurr má bæta vatni. Ekki gera hana sætari, því hún verður smá sætari þegar erturnar fara út í.
Upplagt að búa til chapatideigið og undirbúa ferska grænmetið og myntusósuna meðan kássan mallar.
Þegar eru 10 mínútur í mat, er ertunum bætt út í ásamt fersku kóríanderinu og hitinn hækkaður og kássan látin þorna. Meðan erturnar sjóða er upplagt að steikja chapati! Það er heldur ekkert vitlaust að veiða negulnaglana og lárviðarlaufið upp úr.

Steikið chapati skv. þeirri uppskrift sem þið notið. (Eða þurrsteikið bara tortillur á heitri pönnu, það er auðveldara og næstum því eins)

Myntusósan er mjög einföld. Saxið myntu og graslauk. Setjið hvítlaukin í gegnum hvítlaukspressuna. Blandið öllu saman.
Ferska grænmetið er einfaldlega grófsaxað.

Svo fær sér hver og einn kássu ofan á sína tortillu, ferskt grænmeti ofan á og drekkir öllu í myntusósu og setur srirachi sósu ef vill. Vefur upp tortilluni ef það er hægt og kjammsar. Þetta er ótrúlega ferskt og gott.

Eina sem ég myndi vilja bæta í þessari uppskrift er að ég myndi líklega vilja blanda svolitlu af soðnum hrísgrjónum við kássuna. Það myndi gera hana auðveldari viðureignar inn í brauðinu. Svona svipað og Serranos er með hrísgrjón í burritos-inu. Eins og þessi uppskrift var, réði ég ekki við að borða tortilluna sem wrap, heldur þurfti ég að nota hnífapör.

Ég náði ekki að taka mynd því þetta var uppurið áður en mér hugkvæmdist að taka hana.

Kjöt í karrý

August 8th, 2013

Eftir áralangt tuð fjölskyldunnar eldaði ég loksins kjöt í karrý. Ég hef haft sérstakt ógeð á þessum mat síðan ég var krakki og ekki mikið langað til að elda hann. Ég hef hins vegar fengið aukinn áhuga á íslenskum heimilismat og lét undan. Merkilegt nokk tókst mér að gera mjög ljúffenga máltíð úr þessu. Og það þrátt fyrir blátt bann við því að gera nokkuð fancy við sósuna! Enda svindlaði ég, eins og sést á uppskriftinni.

Kjöt í karrý f. 4

Kjöt og soð:
1 kg súpukjöt
2 laukar
krydd og grænmeti í soð, sjá nánar að neðan en að minnsta kosti piparkornin og lárviðarlauf

Grjón og meðlæti:
2 bollar grjón (meira ef fólk hefur sérstakt dálæti á grjónum)
4 gulrætur

Í sósuna
30 g smjör
2 msk hveiti
krydd, sjá að neðan, en að minnsta kosti 2 tsk karrý. Ég notaði Prima, en ég er ekki frá því að Gevalía sé málið.
mjólk eftir þörfum, ca. 1-2 dl

Nánari útlistun á kjötsuðu:
Kjötið á beinunum og með allri fitu fer í pottinn, ásamt laukunum 2, hýðislausum.
Setjið endilega annað grófsaxað grænmeti eftir hendinni
(ég notaði 1 gulrót , 1/2 harðan kjarnan úr hvítkálshaus, kartöfluhýði og 2 geira hvítlauk)

Ég notaði alls konar krydd til að uppfylla þörf mína fyrir að fikta í klassíkinni. Það er ekki vitlaust að hafa kryddin í grisju, þá er engin hætta á að neinn bíti í negulnagla þegar sest er að snæðingi.
20 svört piparkorn
2 lárviðarlauf
1 “armur” stjörnuanís (má sleppa, en hann eykur kjötbragðið. Það var ekki hægt að greina neitt anísbragð í tilbúnum réttinum)
4 heilar kardimommur
4 negulnaglar
2 allspice ber
2 einiber
2 tsk kóríanderfræ
nokkur þurrkuð fenugreeklauf (gefa rosalegan karrýilm, fást í indversku búðinni á Suðurlandsbraut undir nafninu Kasoori Methe)
nokkur þurrkuð karrýlauf (gefa öðruvísi karríilm, fást í flestum asískum verslunum)
1 þurrkaður chilli (eða smá chilliduft)
1 tsk rósmarín
1/2 tsk herbes de provance (lambakrydd væri eflaust ágætt líka)
1/2 tsk esdragon

1 tsk worchestersósa
1 msk fiskisósa (nota hana ósjaldan í staðinn fyrir kjötkraft)
smá slurkur af kaffi, ef vill
gróft salt, ca. 1 msk (ef notað er fínmalað salt, þá þarf auðvitað minna)

Vatn látið fljóta yfir, pottlokið á, og svo má þetta malla í 2-3 klukkustundir.

Þegar kjötið er vel soðið, má veiða það upp úr og taka mestu fituna af og fleygja.

Soðið er síað. Ég síaði soðið í gegnum grisju, og þá varð nær öll fitan eftir í grisjunni. Það má líka hirða mauksoðnu gulræturnar úr soðinu ef einhver hefur smekk fyrir þeim.

Nú skal setja hrísrjónin yfir. Ég tók bolla af soðinu og setti í hrísgrjónasuðuna og bætti við 1 tsk salti.

Svo skal sjóða meðlætisgulræturnar í bitum í soðinu í 10-12 mínútur.

Þegar gulræturnar eru tilbúnar hefst sósugerð.
Ég bætti 2 tsk af Martini Rosso, 1 tsk af möluðuð hvítum pipar og 1 tsk af rauðvínsediki í soðið. Það væri jafnvel betra að nota 2 matskeiðar af rauðvíni í staðinn fyrir teskeiðarnar af Martini . Vín, edik og hvítur pipar ýta undir brúnsósukeiminn sem ég vildi ná fram.

Ég sauð svo soðið niður úr ca. 1 lítra niður í ca. 3 dl. Einfaldast er að vera með soðið í potti á heitri hellu og hafa stóra heita pönnu á annarri hellu. Hella góðum slurk af soði úr pottinum í pönnuna og sjóða niður á pönnunni um 2/3 og hella í ílát. Endurtaka þar til búið er að sjóða allt soðið niður.

Þegar búið er að sjóða niður, á að búa til smjörbollu. Ég leyfði hveitinu að brúnast örlítið í smjörinu, og hrærði svo upp með slurk af mjólk. Hrærði svo soðinu út í og þynnti svo með mjólkinni þar til hún var temmileg. Svo setti ég karrýið (kannski aðeins meira en þessar 2 tsk), 1 tsk af túrmerik og hnífsodd af garam masala. Ef ég hefði átt fenugreekfræ hefði ég líklega malað 1/2 tsk og bætt út í. Sósan látin sjóða aðeins svo hún þykkni, hrært stöðugt á meðan.

Allt borið fram.

Þetta var mj. gott. Enginn kvartaði yfir að þetta væri of fancy (enda allt fancy-ið falið í soðinu og bragðbætti bara sósuna og kjötið) og ég er ekki frá því að ég muni malla svona aftur fljótlega.Kjot_i_karry_4

Gult tælenskt karrý með kúrbít, rækjum og grænmeti

June 7th, 2013

1 dós kókosmjólk. Ekki lite. Ekki hrista hana. Kókosfitan á að ná að setjast efst.
1 msk olía, ég notaði Palmín.
Það mætti vafalaust nota 1 tsk rækjumauk. Ég fattaði það því miður of seint.
1 cm ferskt engifer, smátt saxað. Mætti nota galangal líka.
2 msk eða eftir smekk af grænu karrýi. Þetta var vel sterkt…
1 stór kúrbítur, skorinn í litla teninga. (0.5cm)
1 lítill laukur, saxaður
1 msk púðursykur

Þurr krydd. Þetta er mjög mikið slump og frekar vanáætlað.
1/2 tsk nýmöluð fennelfræ, má sleppa
2 tsk túrmerik eða meira. Túrmerikið er stór partur af bragðinu, það er ekki bara litarefni í þessari uppskrift.
1/2 tsk cuminduft
1 tsk hvítur pipar
1/2 tsk karrýduft

1 bolli kjúklingasoð, eða bara vatn og nota þá meira af fiskisósu.
1 tsk sojasósa
skvetta af fiskisósu
2-3 dropar af dökkri sesamolíu. Ég notaði líka 2 tsk af ljósu tahini, en því má sleppa.
4 þurrkuð karrýlauf (má bæta við 1-2 limelaufum ef vill)

3 meðalstórar gulrætur í strimlum.
Tæpur bolli frosnar grænar ertur, nú eða ferskar.

1 msk tómatpúrra, tæp hálf minidós

Ferskar kryddjurtir, má sleppa, þó síst kóríanderinu.
2-3 lauf thailensk basilíka, fínt söxuð
smá ferskt kóríander, ég notaði 5 stilka
1 lauf fersk mynta, ekki meira. Ég notaði 3 lauf nýsprottin og smá úr garðinum.

1 lítil dós vatnskastaníur, eða nota frosnar ef þær fást. Þær voru í sneiðum sem hentaði prýðilega. Skolið dósahnetur vel, annars kemur dósabragð.

1 1/2 bolli frosnar rækjur. Ég notaði cheapo salatrækjur. Ég er viss um að þetta er ekkert verra með ferskum risarækjum.

Safi úr mest 1/2 lime. Restina af lime-inu má svo bera fram í bátum.

Aðferð:
Hitaði kókosfituna efst úr dósinni ásamt auka olíu.
Mýkti engiferið í olíunni, ásamt græna karrýinu. Ef rækjumauk er notað skal steikja það á sama tíma.
Steikið karrýið þar til það byrjar að skilja sig.
Bætti svo kúrbít og lauk við, ásamt öllu þurrkryddinu og sykrinum og svitaði við lágan hita þar til zucchini var byrjað að mýkjast.
Hellti soðinu og restinni af kókosmjólkinni út á. Kryddaði með soja, fiskisósu, sesamolíu og hækkaði hitan til að ná upp suðu.
Bætti við karrýlaufunum. Ef þú vilt nota limelauf, væri upplagt að bæta þeim við líka á þessum tímapunkti.
Lét krauma í nokkrar mínútur.
Bætti við frosnum baunum og gulrótastrimlum og lét sjóða í nokkrar mínútur.
Bætti við tómatmaukinu, ekki láta sjóða of skarpt eftir að tómatmaukinu er bætt út í því þá er hætt við að sósan ysti örlítið.
Bætti við fersku kryddjurtunum og vantskastaníunum.
Smakkaði til með fiskisósu, limesafa og hvítum pipar.
Að lokum hækkaði ég hitan og dembti rækjunum út í. Sauð þar til þær voru næstum heitar í gegn og tók þá strax af hitanum. Ekki ofsjóða þær!

Borið fram með hrísgrjónum, fiskisósu og lime.

IMG_9525_small.

Hollandaise and friends

May 8th, 2013

Smjörsósur eru æði! Bý til einfalda hollandaise þegar það á við, og bragðbæti hægri vinstri þegar það á við.

Hér er listi af því sem ég man eftir að hafi ratað í smjörsósu hjá mér. Ekki allt í einu, þó.

Fitur:
Smjör
Kókosfeiti
Andafeiti
Svínafeiti

Áfengi:
Rauðvín
Hvítvín
Viský
Koníak
Gin
Rautt martini

Mjólkurvörur:
Rjómi
Sýrður rjómi
Jógúrt
Skyr
Mjólk

Kraftur:
Nautakraftur
Kjúklingakraftur
Lambakraftur
Tómatkraftur
Nautasoð
Kjúklingasoð

Kryddsósur:
Tabasco
Ýmsar aðrar piparsósur
Worchestershiresósa
Sojasósa
Fiskisósa
Dijon sinnep
Enskt sinnep

Grænmeti:
Skalotlaukur
Gulur laukur
Hvítlaukur
Sellerý
Púrra
Gulrætur
Fennel

Bindiefni:
Eggjarauður
Sojalesitín (mæli ekki með því)

Krydd:
Esdragon
Salt
Svartur pipar
Herbes de provence (frá Söstrene Grene)
Timian
Salvia
Rósmarín
Hvítur pipar
Malað chilli
Einiber
Sykur

Sýrur:
Sítrónusafi nýkreistur
Sítrónusafi úr flösku
Hreint edik
Hvítvínsedik
Rauðvínsedik
Eplaedik
Balsamedik
Hrísgrjónaedik

Yfirleitt er aðferðin þessi:
Steiki saltað, piprað og kryddað grænmeti í smá olíu eða annarri fitu, þar til það verður mjúkt.
Helli soði (eða öðrum krafti), víni og sýru út á og læt sjóða niður. Bæti við slurk af vatni ef vökvinn er að hverfa.
Sía soð frá og sýð meira niður, set meiri sýru ef þarf. Bæti við sinnepi eða öðrum kryddsósum ef vill.
Hef fituna alveg tilbúna við hliðina á mér, kalda, helst í bitum.
Aðskil 2-3 egg, rauðurnar fara í sósuna, hræri vel og vandlega með pottann af hitanum. Þegar sósan er farinn að þykkna og lýsast, hendi ég nokkrum bitum af fitu út í. Hræri fituna út, og bæti meira við þegar fitan er alveg samlöguð. Ef hitinn í sósunnu nægir ekki til að bræða fituna er pottinum brugðið á helluna, þar til fitan byrjar aftur að bráðna.

Þegar nóg er komið af fitu, má krydda með þeim kryddum sem vantar og milda með mjólkurvörum ef vill.

Grænt karrý með butternut squash og rækjum.

May 1st, 2013

2 msk kókosfeiti
1 dós kókosmjólk (ekki ‘lite’ og ekki hrista dósina!)
1/2 tsk shrimp paste (má sleppa, og nota t.d. fiskisósu í staðinn)
1 msk eða eftir smekk af góðu grænkarrísmauki. (Nei, það er ekki svindl)
2 tsk púðursykur
3 skalotlaukar saxaðir (má nota venjulegan lauk, en það kemur meira tælenskt bragð af skalotlauknum)
þumlungsbiti engifer smátt saxað
4 hvítlauks geirar, saxaðir
karrýduft á hnífsoddi
1/2 – 1 tsk hvítur pipar

4 þurrkuð kaffirlimelauf (vafalaust betra að nota fersk, en kannski þarf að nota minna, þekki það ekki)
2 bollar kjúklingasoð (má nota vatn og 1/2 kjúklingatening)
1/2 butternut squash
2 þumlunga biti af tamarind
1 tsk þurrkuð methi lauf (má sleppa, eða hugsanlega setja örlítið meira karrýduft eða enn frekar fínmöluð fenugreekfræ)
4 lauf thailensk basilika (má sleppa. Basilika er lélegt substitute, mæli frekar með laufum anísjurtar og örlítilli myntu og já, jafnvel soldið af basilíku í bland)

1 laukur
250 gr. rækjur (notaði bara frosnar, forsoðnar rækjusalatsrækjur. Vafalust betra að nota humar eða tígrisrækjur ef maður tímir og nennir. Þær þurfa þá að fara fyrr út í)
smá ferskt kóríander (má líka sleppa, ekkert substitute)

Berið fram með hrísgrjónum.

Steikti shrimp paste, grænt karrý, púðursykur og skalotlauk upp úr feitinni við lágan hita, fleytti einnig fitunni ofan af kókosmjólkinni og notaði sem steikarfitu.
Þegar laukurinn var byrjaður að mýkjast, bætti ég við engiferi og hvítlauk, og steikti áfram.
Kryddaði svo með karrýdufti og hvítum pipar og hellti restinni af kókosmjólkinni yfir.

Bætti við 4 kaffirlimelaufum og einum stöngli af sítrónugrasi, ásamt 2 bollum af vatni og hálfum kjúklingateningi (vafalaust ekki verra að nota gott kjúklingasoð!)
Henti methi laufunum út í.
Skar niður butternut squash í ca. þumlungsteninga og bætti út í.
Setti yfir hrísgrjónin.
Setti tamarind í bolla, og hellti svo 1/2 bolla sjóðandi vatni yfir tamarindið.
Leyfði svo karrýinu að malla í ca. 15 mínútur.

Hrærði upp tamarindvatnið, til að ná sem mestu bragði úr tamarindinu.
Bætti út í 4 laufum af thailenskri basilíku og 5 msk af tamarindvatninu.
Skar niður lauk í sneiðar og henti út í.

Malla í ca. 5 mínútur í viðbót

Þegar butternut squashið var orðið mjúkt og sætt skellti ég frosnu rækjunum út í, ásamt kóríandrinu.
Kreisti safa úr tæpum 1/4 lime yfir og hrærði saman við.
Hitaði rækjurnar í gegn.
Bar fram með grjónum.

Þetta vakti gríðarlega lukku hjá Fjólu og mér. Eldri drengnum þótti það gott, en sá yngri var síður hrifinn.

Þetta þarf ekkert að vera svona flókið. Það væri örugglega ekkert vondur matur að steikja grænt karrý, smá sykur og fiskisósu úr kókosfitu, henda butternut squash og lauk í sneiðum út á og kókosmjólk yfir. Sjóða, bæta við rækjum undir lokin. Það yrði gott, en þetta var guðdómlegt!

Daikon hrásalat

April 10th, 2013

Ég keypti daikonhreðku í Bónus í dag. Ætla m.a. að nota í einfalt hrásalat.
Engar mælingar, smakkist til.

Rifin hreðka
Smá chiliduft.
Sma edik, helst hrísgrjónaedik.
Pínkuponsu sykur, eða rífa niður smá epli eða mjög sæta og góða gulrót.
Japönsk sojasósa
örlítið af dökkri sesamolíu
Önnur tiltölulega bragðlaus olía, ef vill

Paneer með spínati

February 7th, 2013

Búa til paneer.
http://www.wikihow.com/Make-Paneer-%28Indian-Cheese%29

ég bjó til mjúkan paneer úr tveimur lítrum af mjólk, með 50/50 ediki og sítrónusafa til að hleypa
mætti prófa harðan líka

Búa til sósu
1.5 laukur
stór biti engifer smátt saxaður
1/2 tsk broddkúminfræ
salt og pipar
Þetta er steikt þar til það verður mjúkt og sætt
Setja á meiri hita, bæta við handfylli af frosnu spínati (ca. 100 gr) og láta þiðna í hitanum
Ef ekki er til ferskt spínat má nota samtals 200 gr af frosnu.

Setja allt saman í matvinnsluvél með ca 1.5 dl jógúrt, blend!

Steikja paneer upp úr (ghee, olíu, smjöri, ble) á meðan, þar til hann verður brúnflekkóttur

Bæta við sósunni, steikja þar til paneerinn er allur úti í sósu.
Bæta við hrúgu af fersku spínati, ég notaði ca. 150 gr. Steikja þar til það koðnar.
Salta

Þetta er ótrúlega gott, eins undarlega og það hljómar.

Músakka

October 23rd, 2012

Þetta er kartöflumúsakka, sem er serbneskt að uppruna. Kryddblandan er samt miklu austrænni, þannig að þetta er svona fjúsjónmúsakka.

lambahakk 500 gr
(venjulega er notað 50/50 grísa- og nautahakk í serbneskt músakka, en mér finnst lambið gott með þessum kryddum)

1 paprika
1/2 lítill kúrbítur
2 laukar, ekkert brjálstórir
2 gulrætur
1 seljustöngull
fita, ég notaði 50/50 jómfrúarolíu og grísafeiti
allt smátt saxað byrja að svita
Grænmetið er ekkert heilagt nema laukurinn.
Það mætti t.d. örugglega skipta út einhverju af kjötinu og/eða paprikunni og kúrbíti fyrir eggaldin.
Eða sleppa seljunni, paprikunni og zuccini-inu bara alveg og hafa stærri lauka.
Fjölbreytnin gefur samt dýpt í bragðið.

1 tsk corianderfræ
1/8 tsk cumin fræ.
1 negulnagli
1 sm bútur kanilæl
2 allspice ber
alla vega tvær tsk pipar
salt
allt í kryddkvörn og út í miðja svitun

svita örugglega samtals í hálftíma við lágan hita

lambahakkið steikt saman við við hærri hita

bætt út í

tómatpaste ein dós
smá fiskisósa
smá martini rosso
1/2 tsk oregano
1/2 tsk rósmarín
2 tsk paprikuduft
smá chilliduft

mallmall svo
bæta ca. bolla af mjólk
meira mall

kássa tilbúin e. ca. 1 kst frá byrjun

skera slatta af kartöflum í þunnar sneiðar
(ég notaði 3 bökunarkartöflur. ca. 700 grömm)

olía í eldfast mót
raða á víxl kartöflum og kássu, svo eggjasull yfir

eggjasull er ca. 1 1/2 bolli jógúrt eða súrmjólk
3 egg
smá brætt smjör
smá rifið múskat
pínku salt
ostur ef vill, ég setti ca. 1/2 bolla
blandibland og hellt yfir

Bakað lengi við 200 gráður, alla vega klukkutíma
Ef eggjasullið brúnast of mikið, þá klára með álpappír ofan á.

Hollenskur lagsmaður með spagú

February 4th, 2010

Innihald:
Reyktur lax, ca 100gr
2 eggjarauður
1 tsk dijonsinnep
vatn
1 laukur
2 stönglar sellerý
2-3 tsk edik
dill á hnífsoddi
100 gr smjör
2-3 msk sýrð mjólkurvara
400gr spagú eða fettucini eða tagliatelle

Setja yfir vatn f. spagú. Hálfur laukur smátt saxaður ásamt sellerýstönglum, steikt í litlum potti. Þegar laukurinn er orðinn smá glær, má skvetta eins og 4 msk af vatni á hann, bæta við edikinu og sinnepinu og dillinu. Þegar þetta hefur soðið niður um helming skal taka pottinn af og hræra eggjarauðunum saman við. Þær þykkna hratt, og skal bæta smjörinu við smátt og smátt. Svipað og ef maður væri að laga hollandaisesósu. Skerið laxinn í þunnar sneiðar og saxið svo gróft. Þegar sósan er tilbúin skal setja laxinn út í. Gott er að bæta við 2-3msk af sýrðum rjóma, rjómaosti eða bara AB-mjólk, til að gefa frískara bragð.

Nú ætti pastað að vera tilbúið. Sigtið pastað. Saxið hinn helming lauksins smátt og berið fram með pastanu og sósunni, sem garnish. Endilega setjið líka piparkvörn á borðið og ef til er steinselja, karsi eða annað slíkt mætti bera það fram sömuleiðis. Ef þú ert óbermi, skal setja smjör á borðið, svo það verði nú örugglega nógu mikil fita í boði.